Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir Íslendinga vera að færast nær því að frá frelsi til þess að ferðast eftir þau tíðindi bárust að Danir, Eistar og Færeyingar hafi ákveðið að opna landamæri sín fyrir landsmönnum í júní. Það séu lítil skref en þó í átt að auknu frelsi.
Hann segir ýmsa fyrirvara vera til staðar enda vilji þjóðir heimsins stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Til að mynda megi ferðamenn ekki gista í höfuðborginni, þó þeir megi fara þangað í dagsferðir. Það sé þó jákvætt og auki almennt frelsi Íslendinga.
Guðlaugur segir íslensk stjórnvöld einnig ætla að stíga varlega til jarðar, en þó séu mörg sóknarfæri fyrir Ísland í ljósi þess hversu góður árangur hefur náðst í baráttunni við veiruna hér á landi. Utanríkisþjónustan hér á landi hafi hingað til gert allt sem í hennar valdi stendur til þess að halda merkjum landsins á lofti, en hann viti þó ekki hvort það komi margir ferðamenn hingað til lands.
„Það er erfitt að átta sig á því. Það sem við finnum fyrir er mikill áhugi á Íslandi, af mörgum ástæðum. Meðal annars vegna þess hvernig við höfum staðið að þessu, en sömuleiðis held ég að margir líti til svæða eins og Íslands sem er dreifbýlt og heilnæmt að vera. Það eru sóknarmöguleikar í þessu en íslensk stjórnvöld eru líka að stíga varlega til jarðar, við erum ekki að taka neina óþarfa áhættu,“ sagði Guðlaugur Þór í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þá hefur hann rætt við utanríkisráðherra Noregs og vonast til að samkomulag náist fyrr en seinna. Samtalið hafi í það minnsta gefið góð fyrirheit um slíkt.