Ísland og San Marinó eru einu þjóðirnar sem hafa tapað öllum leikjum sínum í Þjóðadeildinni síðan byrjað var að keppa í henni fyrir tveimur árum.
Ísland tapaði fyrir Danmörku, 0-3, á Laugardalsvellinum í gær og er án stiga eftir þrjá leiki í riðli 2 í A-deild Þjóðadeildarinnar. Í Þjóðadeildinni 2018 töpuðu Íslendingar öllum fjórum leikjum sínum.
Ísland og San Marinó eru einu þjóðirnar sem eiga enn eftir að fá stig í Þjóðadeildinni. Ísland hefur tapað öllum sjö leikjum sínum og San Marinó öllum átta leikjum sínum.
- San Marino (W0-D0-L8) and Iceland (W0-D0-L7) are the only two countries to have a 100% defeat record in the UEFA Nations League. #ICEDEN #NationsLeague
— Gracenote Live (@GracenoteLive) October 11, 2020
Ekkert lið hefur fengið á sig fleiri mörk í Þjóðadeildinni en Ísland. Fyrir tveimur árum fékk Ísland á sig þrettán mörk og er núna búið að fá á sig níu mörk.
Íslendingar fá Belga, efsta lið styrkleikalista FIFA, í heimsókn í fjórða leik sínum í riðli 2 á miðvikudaginn. Það er jafnframt síðasti heimaleikur íslenska liðsins á árinu 2020.
Ljóst er að fimm lykilmenn verða fjarverandi í þeim leik: Aron Einar Gunnarsson, Kári Árnason, Jóhann Berg Guðmundsson, Ragnar Sigurðsson og Alfreð Finnbogason.