Skoðun

Ofbeldi, áreitni og einelti – að virða mörk í samskiptum

Guðný Hildur Magnúsdóttir skrifar

Ofbeldi, áreitni og einelti snýst í grunninn um það að einhver er ekki að virða mörk annarra í samskiptum. Auðvitað getur ofbeldi og áreitni verið mjög mismunandi gróft og mismunandi ásetningur þar að baki. Þau sem virða ekki mörk annarra er fólk af margvíslegu tagi: Sum hafa upphafnar hugmyndir um eigið ágæti. Sum búa yfir innri vanmætti og vanlíðan. Sum upplifa að þau séu beitt óréttlæti. Sum geta ekki tekist á við neitun eða höfnun. Sum glíma við allt þetta. Margt getur komið til: Persónuleikaraskanir (s.s. narcissistic-, borderline-, og antisocial personality disorders). Ofbeldi, vanræksla eða ofdekur í æsku. Valdastaða. Viðhorf og gildi samfélagsins og nánasta umhverfis. Áfallasaga. Notkun áfengis, lyfja og fíkniefna. Taugaþroskaraskanir (s.s. ADHD). Oftast þarf fleira en eitt af þessu að koma til. Sérstaklega þegar um gróft obeldi er um að ræða.

En það sem við getum gert sem samfélag er að opna umræðu um ofbeldi og mörk í samskiptum. Koma okkur saman um hvað er eðlilegt, heilbrigt og ásættanlegt í samskiptum fólks. Við þurfum að styðja og styrkja fólk í því að setja mörk í samskiptum og sérstaklega þurfum við að kenna fólki að virða mörk annarra. Við sem samfélag þurfum að senda skýr skilaboð. Það þurfa að vera viðurlög og afleiðingar þegar fólk beitir ofbeldi. Og þegar fólk fer yfir mörk annarra þá þarf það að fá skilaboð um að það sé ekki ásættanlegt.

Að virða mörk í samskiptum er risastórt málefni sem við öll þurfum að ræða, skilja, læra og kenna. Ég vona að núverandi umræða um ofbeldi og áreitni verði til þess að við eigum auðveldara að tala um mörk og markarleysi í samskiptum og að við lærum eitthvað sem samfélag. Þetta er málefni okkar allra.

Höfundur er félagsráðgjafi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×