Í kringum 17.500 trjátegundir eru í hættu en það er tvöfalt fleiri en allar þær spendýra-, fugla-, frosk- og skriðdýrategundir sem eru í útrýmingarhættu samanlagt. Innan við fimmtíu tré eru eftir í hieminum af um 440 tegundum, að því er segir í skýrslu Botanic Gardens Conservation International.
Magnólíur og tvíkímblöðungar sem eru algengir í regnskógum Suðaustur-Asíu eru á meðal þeirra tegunda sem eru taldar í mestri hættu, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Eik, hlynur og svartviður er einnig sagður í hættu.
Þúsundir trjátegunda í þeim sex löndum þar sem fjölbreytileiki þeirra er mestur í heiminum er í útrýmingarhættu. Flestar þeirra eru í Brasilíu, alls 1.788 talsins. Hin löndin eru Indónesía, Malasía, Kína, Kólumbía og Venesúela.
Hlutfallslega eru trjátegundir á eyjum í mestri hættu samkvæmt skýrslunni. Það er sagt sérstakt áhyggjuefni þar sem margar þeirra tegunda finnast hvergi annars staðar á jörðinni.
Helstu hætturnar sem steðja að trjátegundunum er akuryrkja, skógarhögg og búfjárhald. Loftslagsbreyting og veðuröfgar eru nýjar hættur en nú er talið að í það minnsta 180 trjátegundir séu í hættu vegna hækkandi yfirborði sjávar og ofsaveðurs. Það á sérstaklega við um magnólíutegundir í Karíbahafi.