Í tilkynningu segir að sameinað félag verði einn stærsti framleiðandi á gluggum, hurðum og gleri á Íslandi með um 2,5 milljarða í veltu og starfsemi á fimm stöðum á landinu.
Kristján Geir Gunnarsson er nýráðinn framkvæmdarstjóri sameinaðs rekstrar þessara félaganna.
Í nóvember var greint frá því að Trésmiðjan Börkur, Gluggasmiðjan Selfossi og Glerverksmiðjan Samverk hafi ákveðið að sameinast en nú hefur Sveinatunga bæst í hópinn.
Haft er eftir Kristjáni Geir að með því að fyrirtækin sameinist undir einn hatt myndist slagkraftur til að keppa við innflutning á byggingarvörum sem þessi fyrirtæki framleiði.
„Innan þessara fyrirtækja er mikil þekking á íslenskum byggingamarkaði sem hefur byggst upp í tugi ára. Allar vörur þeirra eru sérstaklega þróaðar fyrir íslenskar aðstæður og afgreiðslutími er mun skemmri vegna nálægðar við markaðinn. Kolefnissporið er lægra svo hægt er að tryggja minna kolefnisspor í byggingariðnaðinum með innlendri framleiðslu með grænni orku,” segir Kristján Geir.