Skoðun

Rétt­lát skipting gjald­töku í fisk­eldi

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Þingsályktunartillaga mín um endurskoðun á reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis, með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi liggur inni í háttvirtri atvinnuveganefnd þingsins. Þessi tillaga var einnig lögð fram í lok síðasta þings og rataði meginefni hennar inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem stendur að mótuð verði heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Tillagan snýr einfaldlega að því að sú endurskoðun feli í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi.

KPMG tók saman í vetur fyrir samtök sjávarútvegsfyrirtækja greiningu á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi. Þar má sjá að þessar greinar skila þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum. Í greiningunni má líka sjá að skipting tekna á milli ríkis og sveitarfélaga er verulega skökk og hallar þar á sveitarfélögin. Hlutdeild sveitarfélaga í heildargjaldtöku í sjávarútvegi og fiskeldi hefur verið 29% á árunum 2016-2020. Útflutningsverðmæti á eldislaxi jukust um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% útflutningsverðmætis eldisafurða á síðasta árinu. Nú er svo komið að útflutningur á eldislaxi skilar næst mestum verðmætum allra fisktegunda sem fluttar eru frá Íslandi. Á Vestfjörðum eru sveitarfélögin, sem hýsa starfsemina í vexti og sá vöxtur kallar á mikla innviðauppbyggingu.

Hraða þarf innviðauppbyggingu

Sveitarfélögin bera hitann og þungann af uppbyggingu innviða og því er það krafan að þau fái stærri hlut af gjaldtöku stjórnvalda. Matvælaráðherra hefur sett af stað vinnu þar sem raungera á stefnu stjórnvalda um að greina þjóðhagslegan ávinning fiskeldis sem og ávinning þeirra byggðarlaga þar sem fiskeldi er stundað. Í framhaldi þarf að skoða sérstaklega gjaldtöku af fiskeldi og skiptingu þeirra gjalda og vinna að stefnumótun í greininni. Þessi greining fer fram samhliða stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á sviði fiskeldis. Stefnt er að því að mat á stöðu og greining á áhrifum, ávinningi, samkeppnisstöðu og gjaldtöku liggi fyrir á sama tíma og niðurstaða Ríkisendurskoðunar.

Stjórnsýsluúttekt á málefnum fiskeldis

Ríkisendurskoðun hefur samþykkt beiðni matvælaráðherra að stofnunin muni framkvæma úttekt á stjórnsýslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og undirstofnana þess á sviði fiskeldis. Er ætlunin að úttektin nái yfir alla stjórnsýslu málaflokksins, allt frá undirbúningi löggjafar og setningu afleiddra reglna til eftirlits með starfsemi fyrirtækja í greininni. Áætlun um afmörkun og framkvæmd úttektarinnar er í vinnslu, en áætlað er að niðurstaða hennar verði birt í opinberri skýrslu til Alþingis á haustmánuðum 2022.

Höfundur er þingmaður Framsóknar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×