Bandalag miðjuflokka Emmanuel Macron Frakklandsforseta bauð afhroð í kosningunum í gær og missti rúmlega hundrað þingmenn, fær 245 af 577 og nær ekki að halda hreinum meirihluta sínum.
Því þurfa miðjuflokkarnir að ná samkomulagi við annan flokk til að mynda meirihluta.
Repúblikanar í oddastöðu
Hinu sameinaða vinstri gekk vel og er næststærsta aflið á þinginu með 131 þingmann.

„Og hafa þeir til dæmis gert kröfu um forsætisráðherrastólinn. En það verður þó að vera ólíklegt að Macron leiti þangað. Leiðtogi þeirra Jean-Luc Mélenchon er talinn heldur róttækur fyrir miðju-hægri pólitík Macron. Og það liggur því beinast við að leita til repúblikana sem eru hefðbundinn hægri flokkur,“ segir Hlöðver Skúli Hákonarson, íslenskur mastersnemi í Evrópumálum sem er búsettur í París.
Og þá vandast málin. Þó repúblikanar standi miðjubandalagi Macron líklega næst þegar stefnumál flokka eru borin saman hefur andað köldu á milli þeirra síðustu ár.
„Og það er kannski líka það að formaður repúblikana er búinn að gefa það út að hann vilji vera í stjórnarandstöðu. En það eru víst einhverjar deilur í flokknum hvað það varðar þannig að það gæti breyst,“ segir Hlöðver Skúli.
Hann kveðst hafa fundið fyrir andstöðu í Frakklandi við helsta stefnumál Macron um að hækka eftirlaunaaldurinn úr 62 árum í 65 ár.
„Ef maður lítur til dæmis á niðurstöðu vinstri flokkanna sem fengu 131 þingmann, helsta stefnumál þeirra hefur verið að lækka eftirlaunaaldurinn niður í 60,“ segir Hlöðver Skúli.
„Almenningur er klárlega að kalla eftir því og vill ekki hreyfa til við þessum eftirlaunaaldri eins og hann er.“
Le Pen vinnur sögulegan sigur
Loks má nefna óvæntan uppgang hægriflokks Marine Le Pen sem meira en tífaldaði fylgi sitt; var með sjö þingmenn en fær nú 89.

„Það bjóst enginn við því að flokkur Le Pen myndi ná hátt í 90 þingmönnum. Það er í raun bara alveg sjokkerandi,“ segir Hlöðver Skúli.
Franska samfélagið sé orðið pólaríseraðra á síðustu árum.
„Já. Það hefur náttúrulega alltaf verið þannig að Frakkar mótmæla mikið en mér finnst það hafa færst í aukana síðastliðin ár.“