Þrjú tilboð bárust en þau voru opnuð hjá Vegagerðinni í dag. Útboðið var auglýst á evrópska efnahagssvæðinu.
Næstlægsta boð kom frá Íslenskum aðalverktökum hf. í Reykjavík, 2.653 milljónir króna, sem var 10 prósent yfir kostnaðaráætlun. Þriðja boðið og það hæsta átti Borgarverk ehf. í Borgarnesi, 2.994 millljónir króna, sem reyndist 24 prósent yfir áætlun.
Suðurverksmenn þekkja vel til vegagerðar á Vestfjörðum. Þeir vinna núna að þverun Þorskafjarðar, breikkuðu Djúpveg í Hestfirði og Seyðisfirði og grófu Dýrafjarðargöng ásamt Metrostav. Þá þveraði Suðurverk einnig Kjálkafjörð og Mjóafjörð í Barðastrandarsýslum.

Þetta er annar verkþátturinn í endurbyggingu Vestfjarðavegar milli Mjólkár í Arnarfirði og Flókalundar í Vatnsfirði. Íslenskir aðalverktakar eru langt komnir með fyrsta áfangann, sem var tvískiptur. Annarsvegar 4,3 kílómetra kafli í botni Arnarfjarðar, milli Mjólkár og Dynjanda, og er hann tilbúinn með bundnu slitlagi. Hins vegar er 5,7 kílómetra kafli upp úr Vatnsfirði að Bíldudalsgatnamótum í Helluskarði en sá kafli var síðar lengdur upp í 8,2 kílómetra. Búið er að klæða um helming kaflans og vonast til að síðari helmingurinn fái bundið slitlag fyrir verslunarmannahelgi.
Kaflinn sem núna bætist við nær frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og liggur um hæsta hluta heiðarinnar, um efstu hlíðar Geirþjófsfjarðar og norður fyrir sýslumörk. Vegurinn verður að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði, að því er fram kemur í útboðslýsingu. Inni í verkinu er einnig gerð námuvegar að námu í Trölladal og gerð tveggja áningarstaða. Framkvæmdatími er áætlaður tvö ár og gert ráð fyrir verklokum 15. júlí 2024.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá því í síðustu viku um kaflana sem eru að klárast: