Verðbólgan á evrusvæðinu jókst úr 8,6 prósentum í júní upp í 8,9 prósent í júlímánuði samkvæmt nýjum tölum frá hagstofu Evrópusambandsins. Verðbólgan hefur risið stöðugt á svæðinu undanfarna mánuði og hefur ekki náð svo miklum hæðum frá árinu 1997, þegar mælingar hófust á evrusvæðinu.
Seðlabanki Evrópu hækkaði vexti í síðustu viku, í fyrsta skipti í ellefu ár, og hefur boðað aðra hækkun í september.
Þá hækkaði orkuverð í júlí um 39,7 prósent vegna fyrirhugaðs skorts á jarðgasi. Matvöruverð, verð á áfengi og tóbaki hefur sömuleiðis hækkað um 9,8 prósent. Það er meiri hækkun en í síðasta mánuði vegna aukins flutningskostnaðar, vöruskorts og óvissu um útflutningsafurðir Úkraínu, sem gjarnan hefur verið kölluð matarkista Evrópu.
Þrátt fyrir þetta hefur hagvöxtur aukist á sama tíma og jókst um 0,7 prósent milli ársfjórðunga. Hagvöxtur í Þýskalandi hefur staðið í stað en jókst um 0,5 prósent í Frakklandi, 1,1 prósent á Spáni og 1 prósent á Ítalíu. Þessi hagvöxtur er talinn boða gott og rekja megi hann að miklu leyti til ferðamannaflaums eftir að ferðatakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins var aflétt.
Í Bandaríkjunum hefur hagvöxtur hins vegar dregist saman á síðustu tveimur ársfjórðungum sem vakið hefur upp áhyggjur um að kreppa sé í vændum. Samkvæmt frétt AP um málið er vinnumarkaðurinn hins vegar enn öflugri en hann var fyrir kórónuveirufaraldurinn og Jerome Powell, aðalhagfræðingur bandaríska Seðlabankans, dregið það í efa að kreppa sé á næsta leiti.