Seðlabanki Evrópu greindi frá þessu um hádegisbil en ákveðið var að grípa til hækkunarinnar til að bregðast við þá verðbólgu sem ríkt hefur í álfunni síðustu misserin.
Seðlabankinn segist ennfremur spá því að hagvöxtur á evrusvæðinu verði einungis 0,9 prósent á næsta ári og útilokar ekki að gripið verði til frekari stýrivaxtahækkana á næstunni.
Verðbólga á evrusvæðinu mældist 9,1 prósent í ágústmánuði og segir bankinn eina helstu skýringuna vera hækkandi orku- og matvælaverð síðustu misserin.
Spá bankans gerir ráð fyrir að meðalverðbólga á árinu 2022 verði 8,1 prósent, sem er aukning frá fyrri spá sem gerði ráð fyrir 6,8 prósenta verðbólgu. Þá spáir bankinn verðbólgu upp á 5,5 prósent á næsta ári og svo 2,3 prósent árið 2024.