Segja má að Lionel Messi hafi endanlega staðfest að hann sé besti knattspyrnumaður allra tíma þegar hann leiddi Argentínu til sigurs á HM í Katar. Eflaust má þó rökræða um þá staðreynd sem og hvort skikkjan sem hann klæddist er bikarinn fór á loft sé töff eður ei.
Eftir að bikarinn fór á loft ákvað fjöldinn allur af fólki að fá sér húðflúr Messi til heiðurs. Einn stuðningsmaður gekk lengra en aðrir og ákvað að smella „MESSI“ stórum stöfum á ennið á sér. Þó ekki séu liðnar tvær vikur síðan Argentína varð heimsmeistari þá sér sá aðili nú þegar eftir ákvörðun sinni.
Það sem vekur enn meiri athygli er sú staðreynd að téður einstaklingur er ekki frá Argentínu. Mike Jambs starfar sem áhrifavaldur og kemur frá Kólumbíu. Hann er mikill aðdáandi Messi og fannst við hæfi að fá sér húðflúr til að halda upp á sigurinn.
Lionel Messi superfan who had the player's name TATTOOED on his face admits he regrets it
— MailOnline Sport (@MailSport) December 30, 2022
https://t.co/bo3EOyWmFt
Upphaflega varði hann ákvörðun sína og sagði meðal annars á Instagram-síðu sinni að hann væri ekki að skaða neinn né að gera eitthvað ólöglegt. Nú hefur hann skipt um skoðun og segir að húðflúrið hafi aðeins haft neikvæðar afleiðingar, bæði fyrir sig og fjölskyldu sína.
Hvort Jambs stefni nú á að láta fjarlægja húðflúrið er ekki vitað.