Gangi spáin eftir munu meginvextir Seðlabankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, fara úr 6,5 prósentum í 7,25.
Í tilkynningu frá Hagfræðideild Landsbankans segir að aukin verðbólga í febrúar hafi komið á óvart, verið almennari en áður og að undirliggjandi verðbólguþrýstingur hafi aukist.
„Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur aukist og gengi krónunnar hefur lítið sem ekkert breyst. Þættir á borð við miklar launahækkanir, stuttan gildistíma nýrra kjarasamninga og áframhaldandi óvissu um launaþróun eru einnig til þess fallnir að auka verðbólguþrýsting.
Þá teljum við að vísbendingar um kröftugan hagvöxt, þó nokkuð mikla einkaneyslu og áframhaldandi komu erlendra ferðamanna renni frekari stoðum undir stýrivaxtaspána. Þrátt fyrir að meginvextir bankans hafi hækkað úr 0,75% í 6,5% á tæpum tveimur árum virðast þeir síður en svo hafa dregið allan þrótt úr hagkerfinu.
Við teljum að nefndin ræði hækkun vaxta á bilinu 0,5-1 prósentustig og að 0,75 prósentustiga hækkun verði ofan á,“ segir í tilkynningunni.
Stígi fast til jarðar
Ákveði nefndin að hækka stýrivexti er um að ræða tólftu hækkunina í röð. Síðasta vaxtaákvörðun, sem tilkynnt var 8. febrúar, fól í sér 50 punkta hækkun, úr 6 prósentum í 6,5.
Næsta stýrivaxtaákvörðun á eftir þeirri í næstu viku, er á dagskrá 24. maí og þar á eftir í ágúst.
„Þar sem nokkuð langt er á milli næstu funda gerum við ráð fyrir að nefndin telji vissast að stíga fast til jarðar og sem fyrr segir teljum við að þau ræði hækkun vaxta á bilinu 0,5-1 prósentustig og að 0,75 prósentustiga hækkun verði ofan á,“ segir í spá Landsbankans.