Danskir blaðamenn voru margir hverjir ekki miklir aðdáendur Guðmundar þegar hann þjálfaði danska landsliðið á sínum tíma en þeir geta ekki litið frá þeirri staðreynd að íslenski þjálfarinn er búinn að kom Fredericia í undanúrslit í fyrsta sinn í meira en fjóra áratugi.
Guðmundur fær þannig mikið (og sjaldséð) hrós frá danska handboltasérfræðinginum Peter Bruun Jörgensen sem skrifar reglulega pistla um handbolta á TV2.
Jörgensen fer stuttlega yfir sögu Fredericia sem varð fimm sinnum danskur meistari á áttunda áratugnum en endaði á að verða gjaldþrota 2012. Félagið kom síðan aftur upp árið 2019 og Guðmundur Guðmundsson fékk síðan það stóra verkefni að koma liðinu aftur í hóp þeirra bestu.
Útlitið var kannski ekki allt of bjart þegar hlé var gert á dönsku deildinni vegna heimsmeistaramótsins en eftir að Guðmundur kom heim af HM og hætti með íslenska landsliðið þá hefur Fredericia verið á miklu skriði.
„Þegar öllu er á botninn hvolft þá er allt tímasett og skipulagt af honum duglega þjálfara Guðmundi Guðmundssyni. Fyrrum þjálfari danska landsliðsins, sem tók við liðinu fyrir tímabilið, hefur sett sinn svip á þetta lið. Handboltanördinn, sem eyðir mestum tíma sólarhringsins í að hugsa um handbolta og dreymir hann eflaust líka,“ skrifar Peter Bruun Jörgensen.
„Öll smáatriði eru skoðuð út í þaula, leikgreind og lausnum komið til skila. Bæði í leikgreiningarherberginu en líka þegar hann hleypur upp og niður hliðarlínuna í leikjunum sjálfum. Hann er líka að uppskera fyrir þessa miklu vinnu og ég ber mikla virðingu fyrir því,“ skrifar Jörgensen.
„Ég dáist af Guðmundi Guðmundssyni til að koma liði sínu í undanúrslitin. Getur Fredericia farið alla leið og orðið danskur meistari? Ég held ekki. Þrátt fyrir allt þá verður þetta einvígi á milli Álaborgar og GOG,“ skrifar Jörgensen. Það má lesa allan pistilinn hér.