Kerfislæg vandamál innan lögreglunnar í Minneapolis gerðu örlög Floyd mögulega samkvæmt skýrslunni. Lögreglumaður hélt hné sínu á hálsi Floyd í níu og hálfa mínútu þar til hann lést. Skeytti lögreglumaðurinn engu um að Floyd segðist ekki ná andanum né um mótbárur vegfarenda sem urðu vitni að aðförunum.
Vegfarandi náði myndband af drápinu sem vakti mikla reiði í Bandaríkjunum og varð kveikjan að mótmælum gegn kerfislægri kynþáttahyggju og lögregluofbeldi bæði þar og víða um heim.
Derek Chauvin, lögreglumaðurinn sem hélt Floyd niðri, var sakfelldur fyrir morð og manndráp. Hann hlaut 22 og hálfs árs fangelsisdóm fyrir morðið og 21 árs dóm fyrir að brjóta á borgararéttindum Floyd. Dómana afplánar hann samtímis.
Lögreglan er sögð hafa notað ólíkar aðferðir við eftirlit í hverfum eftir kynþætti íbúa þar. Fólki hafi verið mismunað eftir kynþætti þegar leitað var á því, það handjárnað eða beitt valdi.

Refsuðu fólki sem fór í taugarnar á þeim
Auk þess að brjóta á svörtum og frumbyggjum komust skýrsluhöfundar ráðuneytisins að því að lögreglumenn í Minneapolis hefðu beitt óhóflegu ofbeldi og brotið réttindi fólks sem nýtti stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi sitt. Þeir hefðu meðal annars valdið óréttlætanlegum dauða fólks.
„Um árabil beittu lögreglumenn í Minneapolis hættulegri tækni og vopnum gegn fólki sem framdi smávægulegustu afbrot og stundum alls engin brot,“ segir í skýrslunni. Lögreglumenn hafi beitt valdi til þess að refsa fólki sem reitti þá til reiði eða gagnrýndi lögregluna.
Þá er eru borgaryfirvöld átalin fyrir að senda lögreglumenn til að sinna útköllum sem gætu tengst geðrænum vandamálum jafnvel þegar það væri ekki nauðsynlegt eða við hæfi. Þetta hefði sett bæði lögreglumenn og borgara í hættu.
Dómsmálaráðuneytið segir að yfirvöld í Minneapolis hafi nú þegar innleitt vissar umbætur. Til dæmis sé lögregluþjónum nú bannað að þrengja að hálsi fólks líkt og Chauvin gerði við Floyd. Þá séu nú þjálfað geðheilbrigðisstarfsfólk sent í sum útköll frekar en lögreglumenn.