Kaupfélag Skagfirðinga greinir frá vistaskiptum Ólafs Ágústs Andréssonar í fréttatilkynningu en þar er hann bara nefndur Ágúst Andrésson. Í tilkynningunni segir að það sé samkomulag um að Ágúst starfi hjá félaginu fram yfir sláturtíð í haust og verði svo til ráðgjafar ákveðinn tíma í framhaldinu.
Þar segir einnig að á starfstíma Ágústs hafi starfsemi kjötafurðasviðs KS vaxið mikið, ekki síst á síðustu árum. Í dag myndi nokkrar rekstrareiningar kjötafurðasvið félagsins.
Þær eru sauðfjár- og stórgripasláturhús á Sauðárkróki, stórgripasláturhús á Hellu, kjötvinnslan Esja Gæðafæði ehf. í Reykjavík og sauðfjársláturhús á Hvammstanga sem er í sameiginlegu eignarhaldi með Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga.
Stjórnendur Kaupfélags Skagfirðinga þakka Ágústi fyrir gott samstarf og árangursríkt starf fyrir félagið og íslenska bændur.
Ólafur Ágúst hefur frá árinu 2014 verið kjörræðismaður Rússa. Í kjölfar innrásar Rússa inn í Úkraínu í febrúar á síðasta ári var hann spurður út í þann möguleika að slíta samstarfi við Rússa. Hann sagðist þá ekki einu sinni hafa hugleitt það.