Þóra Kristín Jónsdóttir hefur gert samkomulag við Hauka um að spila með liðinu í Subway deild kvenna næsta vetur.
Þóra Kristín er Haukakona í gegn og hefur spilað allan sinn feril á Íslandi með félaginu. Hún hefur alls spilað 216 leiki fyrir Hauka í efstu deild sem er félagmet og er hún í 4. sæti yfir stigahæstu leikmenn félagsins (1364) og í 2. sæti yfir flestar gefnar stoðsendingar (739). Þóra varð Íslandsmeistari með Haukum vorið 2018 og auk þess tvisvar bikarmeistari.
Hún fór út til Danmerkur í nám sumarið 2021 og lék þar með AKS Falcon í dönsku deildinni.
Þóra varð danskur meistari bæði árin sem og bikarmeistari á fyrra ári sínu með liðinu. Á síðustu leiktíð skilaði Þóra 11,5 stigum, 3,5 fráköstum og 3,1 stoðsendingu að meðaltali fyrir Falcon í dönsku deildinni.
Þóra Kristín hefur einnig verið fastamaður í íslenska landsliðinu og oftast í byrjunarliði þess. Hún á að baki 29 landsleiki og hefur skorað í þeim 180 stig og gefið 90 stoðsendingar.