Þetta kemur fram í nýrri stiklu úr væntanlegri heimildarþáttaröð um breska stjörnuparið sem kemur út á Netflix. Í seríunni er fjallað um samband hjónanna í fjórum þáttum.
„Umboðsmaðurinn minn tönnlaðist á því að við ættum að reyna að halda þessu leyndu. Þannig að við hittumst á bílastæðum. Það er ekki eins subbulegt og það hljómar,“ segir Victoria á léttum nótum.
Hjónin hófu að stinga saman nefjum árið 1997. Þau hittust í fyrsta sinn á leik Manchester United, liði David. Fótboltamaðurinn hefur áður lýst því hvernig þau hafi spjallað tímunum saman á svæði leikmanna á Old Trafford þennan sama dag. Þau hafi aldrei litið um öxl.