Heimamenn í Fredericia byrjuðu mun betur og komust fljótt í fjögurra marka forystu í stöðunni 5-1. Gestirnir jöfnuðu þó metin í 7-7 og aftur í 8-8, en það voru þó heimamenn sem fóru með forystuna inn í hálfleikinn í stöðunni 12-10.
Mors-Thy skoraði þó fyrstu sex mörk seinni hálfleiksins og náði fjögurra marka forystu. Lærisveinar Guðmundar söxuðu þó á forskot gestanna jafnt og þétt og náðu loks forystunni á ný þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. Liðin skiptust þó á að skora á lokamínútunum og niðurstaðan varð að lokum jafntefli, 25-25.
Einar Þorsteinn Ólafsson var á sínum stað í liði Fredericia og lagði upp eitt mark, en tókst ekki að skora sjálfur.
Úrslitin þýða að Fredericia situr enn í öðru sæti dönsku deildarinnar, nú með 26 stig eftir 17 leiki, þremur stigum á eftir toppliði Aalborg sem á leik til góða.
Á sama tíma mátti Íslendingalið Ribe-Esbjerg þola eins marks tap gegn Skanderborg, 27-26. Elvar Ásgeirsson skoraði tvö mörk fyrir liðið og Ágúst Elí Björgvinsson varði sex skot í markinu.