Fólk á öllum aldri fjölmennti á messuna en eitt aðalmarkmið hennar er að vekja athygli og áhuga yngri kynslóðarinnar á tæknigeiranum. Einnig var boðið upp á getraunir, leiki og pallborð um ódauðleikann.
Okkar maður, Bjarki Sigurðsson, var á staðnum í dag og virti fyrir sér alls kyns nýjungar.
Meðal þess sem var hægt að gera var að keyra kappakstursbíl í sýndarveruleika og gátu bílprófslausir sett sig í spor ökuþóra Formúlunnar.
Þá var hægt að sjá allt sem tengist nýjustu tækni, þar á meðal þrívíddarlistaverk af íslenskri náttúru eftir Maríu Guðjohnsen.

„Þetta er uppspretta tækninnar, við erum með foss sem flýtur fram. Þetta verk er unnið í samstarfi við Origo. Svo er hægt að ganga hérna inn og þar er meira tæknilegt slím sem lekur yfir íslenska kletta,“ sagði María Guðjohnsen, þrívíddarhönnuður.
Hvað er í gangi hérna, er þetta foss?
„Þetta er í rauninni bara tæknislím sem er opið til túlkunar og sjáum við íslenska kletta,“ sagði hún.
