Í fyrsta leik gærdagsins tók KA á móti Vestra. Aðeins eitt mark var skorað í leiknum. Það gerði danski miðvörðurinn Jeppe Gertsen fyrir gestina í uppbótartíma. Hann tryggði Vestra þar með sinn fyrsta sigur í efstu deild. KA er aftur á móti aðeins með eitt stig eftir þrjá fyrstu leiki sína sem hafa allir verið á heimavelli.
ÍA vann annan fjögurra marka sigur sinn í röð þegar Fylkir kom í heimsókn í Akraneshöllina. Lokatölur urðu 5-1, Skagamönnum í vil.
Hinrik Harðarson kom ÍA yfir á 11. mínútu með sínu fyrsta marki í efstu deild. Undir lok fyrri hálfleiks slapp Hinrik í gegnum vörn Fylkis en Orri Sveinn Stefánsson braut á honum og fékk rauða spjaldið.
Líkt og gegn HK-ingum í síðustu umferð gengu Skagamenn á lagið manni fleiri og skoruðu fjögur mörk í seinni hálfleik. Mörkin gerðu Steinar Þorsteinsson, Jón Gísli Eyland Gíslason, Viktor Jónsson og Albert Hafsteinsson. Theodór Ingi Óskarsson minnkaði muninn með fyrsta marki sínu í efstu deild.
Í lokaleik gærdagsins vann Víkingur svo 4-1 sigur á Breiðabliki í uppgjöri Íslandsmeistara síðustu þriggja ára.
Ari Sigurpálsson kom Víkingum yfir á 18. mínútu og tveimur mínútum síðar jók Nikolaj Hansen muninn í 2-0 með sínu fimmtugasta marki í efstu deild. Kristófer Ingi Kristinsson minnkaði muninn í 2-1 á 37. mínútu þegar skot Damirs Muminovic fór af honum og í netið.
Damir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 76. mínútu og tveimur mínútum síðar skoraði Ari sitt annað mark og fjórða mark Víkings.
Mörkin úr leikjum gærdagsins má sjá hér að ofan.