Að minnsta kosti 24 eru látnir af völdum gróðureldanna sem hafa logað í kringum Los Angeles í Kaliforníu frá því í síðustu viku. Þúsundir heimila og fyrirtækja hafa orðið eldunum að bráð.
Ekki er ljóst hver upptök eldanna voru en þeir kunna að hafa kviknað út frá raflínum eða jafnvel verið kveiktir viljandi. Útilokað hefur verið að þeir hafi kviknað út frá eldingum, að sögn AP-fréttastofunnar.
Eldarnir eiga það sameiginlegt að þeir hafa dreift hratt úr sér vegna sterkra árstíðarbundinna vinda sem dæla heitu og þurru lofti sem er ættað úr eyðimörkum innan úr landi á bálið.
Verða heitari og þurrari þegar þeir koma yfir fjallgarðinn
Santa Ana-vindarnir eru sérstaklega tengdir við haustin í Suður-Kaliforníu og norðanverðum Kaliforníuskaga en þeir geta farið af stað allt fram á vorin, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.
Þeir byrja að blása þegar stórt háþrýstisvæði myndast yfir Skálinni miklu í vestanverðum Bandaríkjunum að lágþrýstisvæði undan ströndum Kaliforníu. Skálin mikla er þurrt og hrjóstrugt svæði sem nær meðal annars yfir Nevada, hluta Utah, Idaho og suðaustur Oregon.

Vindar snúast réttsælis í kringum miðju háþrýstisvæðisins og blása þeir heitu og þurru lofti frá eyðimörkunum suður og vestur yfir sunnanverða Kaliforníu í átt að Kyrrahafinu. Þar þurfa þeir að fara yfir Sierra-fjölin. Hlémegin fjallanna kemur niður enn heitari, þurrari og sterkari hnjúkaþeyr.
Hnjúkaþeyr er hlýr og þurr vindur sem blæs af fjöllum. Raki í lofti veldur því að það kólnar minna þegar það er þvingað yfir fjall en það hitnar á leiðinni niður aftur. Hnjúkaþeys af þessu tagi verður meðal annars vart á Norður- og Norðausturlandi í suðlægum vindáttum, að því er kemur fram á vef Veðurstofunnar.
Santa Ana-vindarnir geta orðið enn öflugri þegar þeir blása í gegnum dali og fjallaskörð. Vindstyrkurinn getur jafnast á við í fellibyl þegar verst lætur.

Spáð yfir 30 m/s næstu daga
Vindunum fylgir aukin hætta á gróðureldum vegna þess hversu heitt og þurrt loftið er. Það skapar kjöraðstæður fyrir elda að kvikna í. Aðstæður voru sérstaklega slæmar í Kaliforníu nú vegna langvarandi þurrks sem skapaði nægan eldsmat áður en vindarnir byrjuðu að blása.
Þegar eldarnir kvikna geta Santa Ana-vindarnir dreift hratt úr þeim yfir stór svæði líkt og gerst hefur nú. Reuters-fréttastofan segir að vindurinn hafi blásið glæðum allt að þrjá kílómetra á undan eldunum.
Töluvert dró úr vindi um helgina en veðurspáin á svæðinu fyrir næstu daga er slæm. Frá því í gærkvöldi og fram á miðvikudag var spáð allt að 31 metra á sekúndu. Öllum hátt í tíu milljónum íbúa Los Angeles-sýslu hefur verið tilkynnt að þeim gæti verið sagt að flýja vegna eldanna eða reyks næstu daga.