Erlent

Leið­togi skuggalegs költs hand­tekinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Jack LaSota, leiðtogi sértrúarsafnaðarins er uppi til vinstri. Hinir eru meintir fylgjendur hans og hafa þau verið bendluð við sex morð í þremur ríkjum.
Jack LaSota, leiðtogi sértrúarsafnaðarins er uppi til vinstri. Hinir eru meintir fylgjendur hans og hafa þau verið bendluð við sex morð í þremur ríkjum. AP

Ríkislögregla Maryland í Bandaríkjunum tilkynnti í gær að Jack Lasota, eða „Ziz“, meintur leiðtogi sértrúarsafnaðar, eða költs, sem bendlaður hefur verið við fjölda morða á undanförnum mánuðum, hafi verið handtekin.

LaSota, sem notast við kvenkynsfornöfn, er talin leiða hóp fólks sem kallast „Zizians“ og hafa meðlimir hans verið bendlaðir við sex morð í þremur ríkjum Bandaríkjanna. Þessi meinti sértrúarsöfnuður hefur notið mikillar athygli vestanhafs eftir að meðlimir hans lentu í skotbardaga við landamæraverði í Vermont og skutu einn þeirra til bana.

Fyrir hvað þessi sértrúarsöfnuður stendur er óljóst en „Ziz“ er talin stýra honum og meðlimum hans, sem eru að mestu á þrítugs- og fertugsaldri.

Meðal áðurnefndra morða eru morðin á Richard og Rita Zajko en þegar LaSota var handtekinn í gær, var Michelle Zajko, dóttir þeirra hjóna, einnig handtekinn og fannst skotvopn í bíl þeirra. Maður að nafni Daniel Blank var einnig með þeim í bílnum, samkvæmt frétt NBC News.

LaSota, Zajko og Blank standa frammi fyrir ýmsum ákærum en ekki fyrir morð. Þær verða færðar fyrir dómara seinna í dag þar sem ákveða á hvort þær munu sitja í gæsluvarðhaldi eða eiga möguleika á því að vera sleppt gegn tryggingu. Síðast þegar LaSota var sleppt með slíkum hætti mætti hún ekki í dómsal eins og hún átti að gera.

Þremur mánuðum eftir að LoSota sviðsetti andlát sitt í bátaslysi var hún viðstödd áflog í Kaliforníu þar sem meðlimir sértrúarsafnaðarins stungu leigutaka þeirra með sverði, vegna deilna um skuld þeirra.

Réttarhöld í því máli áttu að hefjast í vor en leigutakinn var skorinn á háls í síðasta mánuði og segja lögregluþjónar að það hafi verið gert til að koma í veg fyrir að hann bæri vitni við réttarhöldin. Einn hefur verið ákærður fyrir morðið en hann hafði áður ætlað að giftast konunni sem skaut áðurnefndan landamæravörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×