Innlent

Góður vilji bjargar ekki leikskólamálunum

Anna Gunndís Guðmundsdóttir skrifar
Björg Magnúsdóttir hvetur borgarstjóra til að setja leikskólamálin í forgang og segir að þær viti báðar að það þurfi meira til en spretthóp og góðan vilja.
Björg Magnúsdóttir hvetur borgarstjóra til að setja leikskólamálin í forgang og segir að þær viti báðar að það þurfi meira til en spretthóp og góðan vilja. Vísir/Vilhelm

Björg Magnúsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður borgarstjóra, birti í dag pistil um biðlista borgarinnar eftir leikskólaplássi. Sonur hennar bíður nú eftir plássi og ef fer sem horfir kemst hann ekki inn fyrr en ári of seint miðað við upplýsingar á vef borgarinnar. 

Í pistlinum sem Björg birti á Facebook segir að sonur hennar sem er nú orðinn 27 mánaða sé númer 25 á biðlista eftir fyrsta vali á leikskóla í hverfinu þar sem þau búa. Í öðru og þriðja vali er staðan enn verri en þau hafa útilokað þá möguleika þar sem það gengur ekki upp fyrir þau að keyra langar vegalengdir í önnur hverfi til að koma barninu á leikskólann.

Meðalaldur barna þegar þau komast inn á leikskóla er 22 mánuðir samkvæmt nýlegum fréttum frá Reykjavíkurborg.

Borgin miðar inntöku við átján mánaða aldur 

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að reynt sé að miða við það að börn sem eru orðin átján mánaða 1. september ár hvert fái boð um leikskóladvöl sama haust. Börn með samþykktan forgang mega byrja í leikskóla við tólf mánaða aldur. Þá segir þar einnig að í sumum sjálfstætt starfandi leikskólum geti börn byrjað fyrr.

Björg segir að sonur hennar sé nú hjá stórkostlegum dagforeldrum sem hafi tíu börn í sinni umsjá en þar er um helmingur barnanna eldri en tveggja ára. Dagforeldrar segja stöðuna í þeirra málaflokki aldrei hafa verri.

Í pistlinum kemur einnig fram að Björg hafi rætt við marga foreldra í sömu stöðu sem reyna eftir ýmsum leiðum að eiga við vonlausa stöðu. Annað hvort með krókaleiðum í kerfinu, flutningum í önnur sveitarfélög eða með því að foreldrar þurfi ítrekað að skiptast á að fara fyrr úr vinnu til að sækja barnið langa leið til dagmömmu sem staðsett er í allt öðru hverfi.

Aðrar kostir gætu verið liður í lausninni

Þá fjallar Björg um markmið fyrrum borgarstjóra, bæði Dags B. Eggertssonar og Einars Þorsteinssonar og þær lausnir sem þeir hafi reynt að koma til leiðar og nefnir þá sérstaklega lausnir varðandi færanlegar einingar, hröðun framkvæmda og svo samtalið við vinnumarkaðinn um annað form á daggæslu og leikskóla á vegum borgarinnar en þó reknir innan fyrirtækja.

Heiða Björg Hilmisdóttir og Einar Þorsteinsson eru ósammála um hvernig leysa eigi leikskólamál borgarinnar.Vísir/Vilhelm

Þá bendir Björg á að rekstur leikskóla sé ekki lögbundin þjónusta þrátt fyrir breiða sátt um að þeir séu reknir af sveitarfélögum. Þó séu dæmi þess að Hjallastefnan og Félagsstofnun stúdenta hafi rekið leikskóla með góðum árangri árum saman og nefnir hún líka leikskóla sem var lengi rekinn af Landspítalanum fyrir starfsfólk. Hún segir að það hafi sýnt sig að þó að vinnustaðaleikskólar leysi ekki upp biðlista borgarinnar þá geti það verið liður í lausninni meðfram öðrum lausnum á vegum borgarinnar.

Þá segir Björg að í nýjum meirihluta sitji flokkar sem hafi sett það fram sem kosningaloforð að leikskólar myndu taka við fæðingarorlofinu við tólf mánaða aldur barns.

Fær ekki pláss fyrr en ári of seint

Staðan er þannig hjá Björgu að ef sonur hennar kemst inn á leikskóla í haust þá verður hann 33 mánaða gamall. Miðað við upplýsingarnar af vef Reykjavíkurborgar hefði hann átt að komast að síðasta haust en bíður nú enn eftir plássi og seinkar því inntöku hans á leikskóla um heilt ár ef hann kemst ekki að fyrr en næsta haust.

Björg hvetur nýjan meirihluta sem nú stýrir borginni til að setja þessi mál í forgang fyrir barnafjölskyldur í borginni.

Hér má sjá færslu Bjargar í heild sinni: 

Ætli við höfum ekki loggað okkur inn á Völu sirka 30 sinnum síðan á mánudaginn? Fyrir þau sem búa við þann lúxus að vita ekki hvað Vala er, þá er það umsóknarvefur Reykjavíkurborgar um leikskólapláss.

Í fréttum frá borginni kemur fram að meðalaldur við inntöku í leikskóla sé nú 22 mánuðir. Það hljómar vel, að börn komist inn rétt fyrir tveggja ára aldur. Á góðu dögunum samgleðst ég innilega þeim heppnu fjölskyldum sem fá pláss á þeim tíma. Staðan hérna megin er hins vegar sú að litli prinsinn okkar, sem er orðinn 27 mánaða, er ekki kominn með leikskólapláss og samkvæmt útreikningum Völu er hann númer 25 í röðinni í leikskólann sem við völdum í fyrsta val. Staðan er enn verri í öðru og þriðja vali en þar er hann númer 31 og 54.

Til að gæta allrar sanngirni skal tekið fram að eftir foreldrafund á þessu heimili var tekin ákvörðun um að halda sig við leikskóla í hverfinu enda ekki á Tetris skipulag hvers dags bætandi að keyra uppá Kjalarnes eða í Grafarvog úr 108 á morgnana og síðdegis þegar umferðin er mest til að koma drengnum fyrir. Svo spilar líka inn í að hann er í vist hjá stórkostlegum dagforeldrum sem segja stöðuna aldrei hafa verið jafnslæma í málaflokknum. Þau hjónin eru saman með 10 börn, um helmingur þeirra eldri en tveggja ára - sem syngur, mokar snjó, hleypur um og spjallar um pólitíkina þess á milli. Það er næsta víst að ekki allar hetjur samfélagsins eru með skikkjur að baða sig í kastljósi fjölmiðla.

Í þessari viku hef ég rætt við marga foreldra í borginni í svipaðri stöðu og flest okkar kannast við spennitreyjuna sem fylgir biðinni. Ein móðir er að reyna að fá uppáskrifað að barnið sitt sé með bráðaofnæmi, af því það er víst ein leið til að fá forgang inná leikskóla. Aðrir foreldrar eiga í daglegu rifrildi um hvort þeirra á að stytta sinn dag og sækja barnið til dagmömmu í Kópavogi sem lokar klukkan 14. Þriðja parið flutti út í sveit þegar frúin hafði pissað á prik og það fjórða flutti til Garðabæjar þegar barnið fæddist.

Í kveðjuviðtölum við þarsíðasta borgarstjóra, hann Dag vin minn, nefndi hann oftar en einu sinni að sá málaflokkur, sem hann hefði viljað ná meiri árangri í á sínum áratug við stjórn borgarinnar, væru leikskólamál. Síðasti borgarstjóri, hann Einar yfirmaður minn og reyndar vinur líka, setti þennan málaflokk í fókus einsog komið hefur fram í fjölmiðlum. Á vikulegum fundum hjá honum með lykilhópi starfsfólks og pólitíkusa sem hafði mest með málaflokkinn að gera, var leitað allra leiða og lausna til að fjölga plássum. Einsog oft er með flókin vandamál, þá eru lausnirnar líka flóknar en verið var að kortleggja hvar væri hægt að setja með hraði upp færanlegar einingar til að stækka leikskóla, hraða framkvæmum sem enn eru í gangi alltof víða sem og að opna á samtal við vinnumarkaðinn um annað form á rekstri daggæslu og leikskóla en á vegum borgarinnar.

Það er ágætt að hafa í huga að rekstur leikskóla er ekki lögbundin þjónusta þó það hafi myndast víðtæk og breið sátt um að þessu verkefni skuli sinnt af sveitarfélögum. Hjallastefnan og leikskólar FS eru þó fín dæmi um að fleiri en sveitarfélögum gengur vel að reka þessa þjónustu. Ég man líka eftir Furuborg leikskóla Landspítalans í Fossvogi sem litla systir mín var á þegar mamma starfaði á spítalanum. Aldeilis frábært dæmi.

Ég held að við öll séu meðvituð um það að fleiri vinnustaðaleikskólar leysi síður en svo upp mörg hundruð barna biðlista en þeir geta verið liður í lausninni - og bara ágætt að halda því enn á ný til haga að þeir hafa alltaf verið nefndir í sömu andrá og stækkun annarra leikskóla, viðhaldsátakið sem og nýir borgarreknir leikskólar.

-

Staðreyndirnar tala sínu máli, Reykjavíkurborg gengur ekkert sérstaklega vel með það verkefni að brúa margumrætt bil milli fæðingarorlofs og vinnu. Og mér finnst pólitíkusar skulda okkur foreldrum það að vera raunsæ og heiðarleg en í nýjum meirihluta sitja flokkar sem settu fram leikskóla frá 12 mánaða aldri sem kosningaloforð. Það er í besta falli jákvæðni en líklega frekar óraunsætt loforð sem er til þess fallið að skapa falskar væntingar og enn meiri vonbrigði þegar planið gengur ekki upp. Okkar strákur kemst í fyrsta lagi - og vonandi inn næsta haust - þá 33ja mánaða. Í mínum bókum er ansi langt bil á milli 12 og 33.

Ég hvet Heiðu vinkonu mína og hina oddvitana, sem stýra nú borginni, til þess að setja þessi mál í alvörunni í forgang og leita allra leiða til þess að ná árangri fyrir fjölskyldur og börn í borginni. Og ef við erum alveg heiðarlegar þá vitum við að til þess þarf meira en spretthóp og góðan vilja.


Tengdar fréttir

Alvotech fær ekki að byggja leikskóla

Nýr borgarstjórnarmeirihluti hyggst ekki veita Alvotech leyfi til að byggja leikskóla fyrir börn starfsmanna fyrirtækisins, og segir fyrirtækjaleikskóla brjóta gegn jafnræðisreglu. Oddviti Framsóknarflokksins og fyrrverandi borgarstjóri segir „afar leitt“ að ný borgarstjórn hafi ákveðið að láta „kreddustjórnmál vinstri vængsins“ ráða för í leikskólamálum.

Leikskólarnir ekki fyrst og fremst fyrir for­eldra

„Stærsti vandi leikskólanna í dag er skortur á leikskólakennurum. Og hvernig ætla einkafyrirtækin að fá leikskólakennara? Þau ætla að hækka launin þeirra. Er þetta ekki sama fólk og kvartar yfir því oft á tíðum ef laun kennara eru hækkuð,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×