Íslenski boltinn

Baðst af­sökunar á tæklingunni í Garða­bænum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Samúel Kári Friðjónsson.
Samúel Kári Friðjónsson. Stjarnan

Samúel Kári Friðjónsson, leikmaður Stjörnunnar, hefur beðið Gabríel Hrannar Eyjólfsson, leikmann KR, afsökunar á tæklingu gærdagsins sem hefur vakið töluverða athygli. Þetta staðfestir þjálfari KR.

Samúel Kári fékk að líta beint rautt spjald fyrir að strauja Gabríel í leik gærkvöldsins en sá síðarnefndi lá óvígur eftir um hríð áður en hann gat haldið áfram leik.

Myndskeið af tæklingunni hefur farið víða og kallað á gagnrýni. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, segir við Fótbolti.net að Samúel hafi haft samband og beðið Gabríel afsökunar.

„Hann hafði samband við mig, fékk númerið hjá Gabríel og var mjög leiður yfir þessu. Þetta er bara búið og gert, menn gera hluti sem þeir sjá eftir. Hann er bara maður að meiri að hringja í Gabríel og biðja hann afsökunar, bara vel gert hjá honum,“ hefur Fótbolti.net eftir Óskari.

Samúel gæti átt yfir höfuð sér leikbann vegna brotsins en það bann mun aðeins gilda í Lengjubikarnum. Stjarnan er fallin úr leik og tæki bannið því ekki gildi fyrr en Lengjubikarinn hefst að nýju á næsta ári.

KR vann leik gærdagsins 3-1. Vesturbæingar mæta Fylki í undanúrslitum Lengjubikarsins í Árbæ á föstudagskvöld klukkan 19:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×