Innlent

Fimm í haldi vegna rann­sóknar á and­láti

Árni Sæberg skrifar
Aðgerðir lögreglu beindust meðal annars að Þorlákshöfn.
Aðgerðir lögreglu beindust meðal annars að Þorlákshöfn. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurlandi hefur til rannsóknar andlát karlmanns sem lést snemma í morgun í umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi. Áverkar á hinum látna benda til að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að rannsókn málsins sé á frumstigum og málið sé rannsakað sem manndráp. Fimm séu í haldi lögreglu í tengslum við rannsóknina.

„Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins og hefur notið aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vesturlandi auk embættis héraðssaksóknara og sérsveitar ríkislögreglustjóra. Vegna rannsóknarhagsmuna er að svo stöddu ekki unnt að veita nánari upplýsingar um málið.“

Í tilkynningu lögreglu kemur ekki fram hvar atvik málsins áttu sér stað en Helena Rós Sturludóttir, upplýsingafulltrúi Ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að sérsveitin hefði verið send á vettvang í Þorlákshöfn en vísaði að öðru leyti á Lögregluna á Suðurlandi. Ekki hefur fengist staðfest hvar maðurinn lést.

Jón Gunnar Þórhallsson, varðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við Vísi að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald fyrir þeim fimm sem voru handteknir. Enn sé verið að ná utan um atvik málsins. Lögregla hefur heimild til þess að halda mönnum í sólarhring án þess að gæsluvarðhaldsúrskurður liggi fyrir.

Að öðru leyti kveðst hann ekkert geta tjáð sig frekar um málið umfram það sem kemur fram í tilkynningu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stöðvaði lögregla ökumenn á leið til og frá Þorlákshöfn í Þrengslum á þriðja tímanum í nótt. 


Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á [email protected]. Fullum trúnaði er heitið.


Fréttin hefur verið uppfærð. Í upphaflegri útgáfu sagði að maðurinn hefði látist í Þorlákshöfn. Það hefur ekki fengist staðfest hvar í umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi maðurinn lést.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×