Þrátt fyrir að stúlkan á myndinni sé jafnan notuð við fréttir sem fjalla um aðskilnað barna og foreldra sem koma ólöglega til Bandaríkjanna þá var það ekki raunin í þessu tilviki. Myndin er vissulega tekin við erfiðar aðstæður og við landamærin en mæðgurnar voru ekki aðskildar heldur dvelja þær saman í landamærabúðum í Texas.
John Moore, fréttaljósmyndari fyrir Getty Images, tók myndina og sagði frá því sem fyrir augu bar þegar hún var tekin.
Móðir stúlkunnar, Sandra Sanchez, var nýbúin að gefa dóttur sinni brjóst og var beðin um að setja hana niður rétt á meðan að landamæravörður leitaði á henni og þá hafi myndin verið tekin.
Mæðgurnar eru saman í landamærabúðum í Texas og bíða þar eftir hæli. Mæðgurnar eru frá Hondúras.
Í samtali við Reuters segir faðir stelpunnar, Denis Valera, að hún sé orðin einskonar táknmynd fyrir þá aðskilnaðarstefnu sem Bandaríkin framfylgja við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Myndin hafi jafnvel orðið til þess að hreyfa við Donald Trump Bandaríkjaforseta. „Það nístir inn að beini að sjá það sem hún upplifði akkúrat á þessu augnabliki“ segir Dennis Valera.
Tímaritið TIME notaði myndina á nýjustu forsíðu sinni þar sem stelpunni er telft á móti Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Áhrifamáttur myndarinnar hefur auk þess orðið til þess að háar fjárhæðir hafa safnast í sjóði til styrktar innflytjendum.
