Yfirlæknir á Landspítalanum segir að árangur Íslendinga við meðhöndlun á alvarlegum Covid-veikindum megi að hluta rekja til lyfja sem læknar höfðu við höndina.
Meðan beðið er eftir bóluefni við Covid-19 hafa læknar um allan heim þurft að reiða sig á önnur lyf til að takast á við sýkinguna. Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisdeildar Landspítalans, segir íslenska lækna verið í sömu stöðu og komist að því að lyf sem þeir þekktu til hafi reynst vel.
„Við uppgötvuðum notkunarmöguleika á „gömlum lyfjum“ sem hafa gagnast vel við þessum sjúkdómi og í þessum faraldri og útskýrir meðal annars af hverju árangaurinn okkar við að meðhöndla fárveikt fólk hefur verið jafn góður, sérstaklega hérna á Íslandi þar sem lækningateymi og hjúkrunarfólk hafa sýnt ótrúlegan árangur sem eftir hefur verið tekið,“ segir Björn.
„Það grundvallast á þekkingu okkar á gömlum lyfjum, hvernig gott er að beita þeim við aðstæður eins og þær sem komu upp í sjúkdómsferlinu núna,“ segir hann.
Þá séu vísbendingar um að meðferðir við berklum kunni að gefa góða raun.
„Það eru líka athyglisverðar niðurstöður þar sem menn eru að nota bólusetningar gegn berklabakteríunni til að styrkja ónæmiskerfið og það er margt sem bendir til þess að það geti gefið vörn gegn Covid-sjúkdómnum vegna þess að það sem berklabóluefni gerir er að það sparkar í ónæmiskerfið á þann stað sem að skiptir mestu máli fyrir varnir okkar gegn þessum vírus,“ segir Björn Rúnar Lúðvíksson.