Skipstjóri fiskveiðiskipsins hafði í morgun samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð vegna veikinda skipverja um borð. Varðskipið Þór var í grenndinni og hélt þegar á staðinn. Þetta segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Sjúkraflutningamenn úr áhöfn Þórs fóru frá varðskipinu á léttbát og sóttu sjúklinginn um borð í fiskveiðiskipið. Þyrla Landhelgisgæslunnar var sömuleiðis kölluð út en hugað var að sjúklingnum um borð í varðskipinu ar til þyrlan kom og sótti manninn.

Fram kemur í tilkynningunni að hann hafi verið hífður um borð í þyrluna síðdegis í dag og flogið með hann til Reykjavíkur þar sem honum var komið undir læknishendur. Um borð í varðskipum Landhelgisgæslunnar séu að jafnaði tveir sjúkraflutningamenn sem hafi í þessu tilfelli getað sinnt manninum þar til Þyrlan kom á vettvang.
Þá segir að samvinna þyrlusveitarinnar og áhafnar varðskipsins hafi gengið afar vel en þetta sé í annað sinn á sólarhring sem bæði þyrla og varðskip eru kölluð til aðstoðar á þessum slóðum.