Ásdís hlaut 1881 atkvæði í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. 2521 greiddi atvæði og gerir það því 74,6 prósent kosningu Ásdísar.
Karen Elísabet Halldórsdóttir bauð sig einnig fram í fyrsta sætið, hún komst ekki á blað og því liggur ekki fyrir hversu mikla kosningu hún hlaut.
Man ekki eftir annarri eins kosningu nýliða
Friðjón Friðjónsson, varaþingmaður, er allra manna fróðastur um kosningasögu Sjálfstæðisflokksins og hann segir að sigur Ásdísar í gær sé einfaldlega stærsti kosningasigur í sögu flokksins.
Aldrei áður hafi nýliði unnið svo afgerandi meirihluta atkvæða, en Ásdís hefur aldrei áður boðið sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.
Þá veki einnig athygli að mótframbjóðandi hennar er sitjandi bæjarfulltrúi í Kópavogi.
Þeir einu sem fái yfir sjötíu prósent atkvæða í prófkjörum séu sitjandi oddvitar eða frambjóðendur sem fá einungis málamyndamótframboð.
Friðjón man þó til þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi fengið ríflega sjötíu prósent atkvæða í sínu fyrsta prófkjöri fyrir Alþingiskosningar. Þá hafi hún þó verið landsþekktur stjórnmálamaður og borgarstjóri Reykjavíkur.
Friðjón slær þó þann varnagla að hann muni aðeins fjörutíu ár aftur í tímann.
Ólga í aðdraganda prófkjörs
Hörð barátta var um oddvitasæti Sjálfstæðismanna í Kópavogi sem endaði þó með gríðarlega afgerandi sigri Ásdísar.
Mótframbjóðandi hennar Karen Elísabet Halldórsdóttir var til að mynda kærð til Persónuverndar fyrir að dreifa persónuupplýsingum um einstakling sem starfað hefur innan flokkins í Kópavogi.