„Eftir að hafa séð þær svona pínulitlar og ótrúlega veikar, að sjá þær núna eins og hvert annað barn er alveg magnað,“ segir Margrét. Dæturnar, Katrín Silfá, Elín Jökla og Salka Björt fæddust 12. apríl, þrettán vikum fyrir tímann.
Voruði einhvern tímann raunverulega hræddar um þær á því tímabili?
„Já, alveg fyrstu tvær, þrjár vikurnar,“ segir Ástrós.
„Já, þá var mikið af svona fyrirburaáskorunum sem þær þurftu að glíma við. Þær fengu allar sýkingu í blóðið og þurftu að fara aftur á öndunarvél. Þessi bakslög, þá varð maður alveg skíthræddur. En svo horfði maður alltaf á þær sigrast á því,“ segir Margrét. „Við misstum aldrei vonina einhvern veginn,“ bætir Ástrós við.
Brot úr viðtalinu við Ástrós og Margréti í Íslandi í dag má horfa á í spilaranum hér fyrir ofan. Þáttinn í heild er að finna á Stöð 2+. Hér fyrir neðan má svo nálgast kvöldfrétt Stöðvar 2 frá í febrúar síðastliðnum, þegar við heimsóttum Ástrós og Margréti fyrst - þá verðandi þríburamæður.