Coritiba hefði fallið með jafntefli eða tapi en Cruzeiro átti á hættu að enda daginn í fallsæti. Robson kom Coritiba í 1-0 með marki á lokamínútu seinni hálfleiksins en leiknum lauk þó ekki fyrr en 45 mínútum seinna.
Leikmenn Coritiba fögnuðu markinu gríðarlega en áður en menn vissu af þá ruddust stuðningsmenn Cruzeiro inn á völlinn og öryggisverðir leiksins réðu ekki neitt við neitt.
Stuðningsmenn Cruzeiro hlupu inn á völlinn og ætluðu að lúskra á sínum eigin leikmönnum sem þeim þótti ekki standa sig. Leikmenn beggja liða flúðu inn í klefa og dómarinn gerði hlé á leiknum. CNN í Brasilíu segir frá.
Stuðningsmenn Cruzeiro náðu ekki í skottið á sínum eigin leikmönnum en þeir fengu aftur á móti óblíðar móttökur frá stuðningsmönnum Coritiba sem höfðu svarað þeim með því að koma líka inn á völlinn.
Upphófust ljót slagsmál á milli stuðningsmanna liðanna út á miðjum velli. Þetta endaði ekki fyrr en lögreglan kom og náði stjórn á lýðnum með táragasi og gúmmíkúlum.
Fjörutíu mínútum seinna flautaði dómarinn leikinn á að nýju og kláraði uppbótatímann en leiknum lauk með 1-0 sigri Coritiba. Þá hafði herlögreglan náð stjórninni en stærsti hluti áhorfenda var líka farinn heim af vellinum.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af því sem gekk á undir lok leiksins.
Absolutely terrible scenes in Brazil during the match between Cruzeiro and Coritiba pic.twitter.com/BPY49BLttG
— Enrik Mhillaj (@enrick_1011) November 11, 2023