Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, virðist hafa tryggt sér áttunda sætið á lista Samfylkingarinnar, en búið er að telja 4538 atkvæði af 4842. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er í sjötta sæti eins og þegar síðustu tölur voru birtar en Guðrún Ögmundsdóttir er á leið út af þingi.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hlaut örugga kosningu í fyrsta sætið, Össur Skarphéðinsson er í öðru sæti og Jóhanna Sigurðardóttir í því þriðja.
Varaformaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson er fjórði, Helgi Hjörvar fimmti og Mörður Árnason sjöundi. Kristrún Heimisdóttir, sem samkvæmt fyrstu tölum var í sjötta sæti, endar í því níunda og Valgerður Bjarnadóttir tíunda.
Fjórar konur og fjórir karlar skipa átta efstu sætin á lista Samfylkingarinnar en flokkurinn hefur einmitt átta sæti á þingi nú. Tryggi flokkurinn sér jafnmarga þingmenn í vor verður einn nýliði í hópnum, Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Atkvæði hafa annars fallið þannig:
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir 3138 atkv. í fyrsta sæti
Össur Skarphéðinssson 2705 atkv. í 1.- 2. sæti
Jóhanna Sigurðardóttir 2359 atkv. í 1.-3. sæti
Ágúst Ólafur Ágústsson 1712 atkv. í 1.-4. sæti
Helgi Hjörvar 2009 atkv. í 1.-5. sæti
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir 1781 atkv. í 1.-6. sæti
Mörður Árnason 2043 atkv. í 1.-7. sæti
Steinunn Valdís Óskarsdóttir 2340 atkv. í 1.-8. sæti
Kristrún Heimisdóttir 2079 atkv. í 1.-9. sæti
Valgerður Bjarnadóttir 2236 atkv. í 1.-10. sæti
Aðeins munar 30 atkvæðum á Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og Merði Árnasyni.