Eins og sést á meðfylgjandi myndum er bíllinn illa farinn en við áreksturinn færðist bíllinn úr stað og lenti uppi á staur og tré á Hverfisgötunni. Var keyrt framan á hann vinstra megin.
Vísir greindi frá því í morgun að tveir menn hafi verið handteknir vegna málsins en þeir voru að ýta bílnum, sem annar þeirra hafði ekið á bíl Svandísar, af vettvangi þegar lögreglan kom að þeim.
Þar sem ekki lá fyrir hvor þeirra hafði ekið bílnum voru þeir báðir handteknir en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni liggur það nú fyrir. Málið telst upplýst og hefur verið mönnunum verið sleppt en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum.

Að sögn Svandísar hrökk hún upp úr svefni um klukkan 2:20 í nótt þegar hún heyrði mikinn dynk.
„Það er hrikalegt að lenda í að vakna við þetta. Ég var bara uppi í rúmi og vakna við einhvern dynk, þetta var mjög hátt svo þetta hefur verið mikið högg, en hugsa bara að ég fari aftur að sofa. Maðurinn minn var hins vegar búinn að fara út í glugga og sagði mér að það hefði verið keyrt á bílinn. Þá var lögreglan komin á vettvang en ég hljóp bara út á náttfötunum,“ segir Svandís í samtali við Vísi.

„Þetta var það mikið högg að bíllinn fer bara úr stæðinu og upp á staurinn og liggur þar láréttur,“ segir Svandís.
Eins og áður segir hefur mönnunum sem voru í bílnum sem ekið var á bíl Svandísar látnir lausir í dag en málið fer nú sína leið í kerfinu að sögn lögreglu.