Laust fyrir klukkan eitt í nótt var maður stöðvaður í Kópavogi með umtalsvert magn af landa í bifreið sinni. Hann var handtekinn grunaður um sölu áfengis, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Nóttin var þó að mestu leyti róleg hjá lögreglu en verkefni hennar sneru aðallega að ölvunarakstri. Fjórir ökumenn voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Á fjórða tímanum í nótt var bifreið stöðvuð í austurbæ Reykjavíkur en þrír menn voru í bifreiðinni. Enginn vildi kannast við að hafa ekið henni og því voru allir handteknir.
Stöðvaður með umtalsvert magn af landa
Kristín Ólafsdóttir skrifar
