Neyðarstjórn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar ætlar að fara yfir og herða reglur um heimsóknir á öldrunarstofnanir og mögulega fleiri aðgerðir til að vernda viðkvæma hópa í kjölfar hópsýkinga Covid-19 sem hafa komið upp á höfuðborgarsvæðinu. Borgarstjóri kallaði saman neyðarstjórn borgarinnar í dag eftir nokkurt hlé.
Nokkur hundruð manns hafa þurft að fara í sóttkví eftir að nokkrir einstaklingar greindust smitaðir, þar á meðal leikmenn knattspyrnuliða á höfuðborgarsvæðinu, undanfarna daga. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, greindi frá því í Facebook-færslu í morgun að hann hefði kallað neyðarstjórn borgarinnar saman í morgun vegna hópsýkinganna. Það væri í samræmi við viðbragðsáætlanir borgarinnar.
Sömuleiðis var neyðarstjórn velferðarsviðs kölluð saman í morgun. Aðgerðir á öldrunarstofnunum verða kynntar þegar þær liggja fyrir, að sögn borgarstjóra.
Auk þess ætla borgaryfirvöld að miðla upplýsingum til starfsfólks og starfsstaða þar sem minnt er á almennar einstaklingsbundnar smitvarnir og aukin þrif í dag. Sérstakar leiðbeiningar og spurningarlistar hafa einnig verið útbúnir vegna starfsfólks sem kemur til vinnu eftir dvöl erlendis til að hægt sé að meta hvenær því sé óhætt að mæta aftur.
„Til upprifjunar þá eru almannavarnir ekki lengur á neyðarstigi - en við erum á hættustigi. Þetta þýðir að Reykjavíkurborg og yfirstjórn borgarinnar heldur stöðugt vöku sinni yfir ástandinu og metur það á hverjum tíma og grípur til þeirra aðgerða í samráði við almannavarnir, sóttvarnarlækni og á vettvangi neyðarstjórnar borgarinnar,“ skrifar Dagur.
Ég kallaði neyðarstjórn Reykjavíkurborgar saman í morgun - eftir nokkurt hlé - vegna þeirrar hópsýkingar Covid-19 á...
Posted by Dagur B. Eggertsson on Monday, 29 June 2020