Risakast Guðna Vals Guðnasonar í Laugardalnum á miðvikudag er tæplega metra lengra en sigurkast Christoph Harting á Ólympíuleikunum í Ríó fyrir fjórum árum.
Guðni kastaði kringlunni 69,35 metra og bætti 31 árs gamalt Íslandsmet Vésteins Hafsteinssonar, á Haustkastmóti ÍR. Hafa ber í huga að nokkur vindur var í Laugardalnum þegar Guðni setti metið en öfugt við það sem gengur og gerist í hlaup- og stökkgreinum þá er vindur ekki mældur í kastgreinum. Vindhraði hefur því ekki áhrif á það hvort met teljist gilt.
Harting kastaði 68,37 metra á Ólympíuleikunum í Ríó og það er jafnframt hans lengsta kast á ferlinum. Guðni varð í 21. sæti á þeim leikum þar sem hann kastaði 60,45 metra, en hann hefði þurft 62,69 metra kast til að komast í 12 manna úrslitin.
Lengra en sigurkastið á langflestum stórmótum
Íslandsmetvegalengd Guðna er lengri en sigurkastið á langflestum heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum í sögunni.
Eins og fram hefur komið er árangur Guðna í gær sá fimmti besti í heiminum í ár. Frá upphafi hafa aðeins 39 kringlukastarar kastað lengra en 69,35 metra. Þjóðverjinn Jürgen Schult á heimsmetið sem er 74,08 metrar frá árinu 1986.
Guðni Valur stefnir ótrauður á Ólympíuleikana í Tókýó á næsta ári en lágmarkið inn á þá leika er 66 metrar, og þykir í raun strangt. Lágmarkinu þarf hins vegar að ná eftir 1. desember næstkomandi en það gefur góð fyrirheit að Guðni hafi náð kasti sem er meira en þremur metrum lengra en lágmarkið.