Rósý Sigþórsdóttir, verkefnastjóri Samhjálpar, hefur staðið vaktina síðan í morgun og hún telur að margir eigi eftir að mæta í jólamatinn í dag. Boðið verður upp á hamborgarhrygg, lambalæri, graflax og síld og ís í eftirrétt.
Að hennar sögn er yfirleitt mest að gera frá ellefu til eitt á aðfangadag en svo slaknar aðeins eftir hádegi. Það sé þó alltaf nóg að gera og stanslaust rót yfir daginn.
Eru margir í bágri stöðu núna fyrir jólin og finnurðu kannski einhverja breytingu milli ára?
„Ég myndi segja að það væri ekkert minna og því miður þá er mjög mikið um þetta og mér finnst mjög mikið af fjölskyldum sem vantar líka. Fyrir mína skjólstæðinga finnst mér vera að aukast fólkið sem er að koma hérna inn. Ég er með sama fólkið í mörg ár og svo er að koma nýtt og nýtt fólk inn líka,“ segir Rósý og segist þakklát fyrir stuðninginn sem Samhjálp hefur hlotið.
„Mig langar bara ofboðslega mikið að þakka öllum sem hafa komið og fært okkur og allir sem hafa styrkt okkur. Bara takk fyrir og gleðilega hátíð, við erum mjög þakklát.“
