Hann á þar við Suður-Kóreumanninn Kim Min-jae sem kom til Napoli frá Fenerbache fyrir tímabilið. Kim hefur spilað frábærlega með Napoli í vetur og vakið athygli liða í ensku úrvalsdeildinni.
Spalletti hefur engan áhuga á að missa Kim sem hann hefur mikið álit á. Hann gekk meðal annars svo langt að segja að enginn miðvörður í heiminum væri Kim fremri.
„Kim gerir að minnsta kosti tuttugu ótrúlega hluti í leik,“ sagði Spalletti eftir 2-0 sigur Napoli á Atalanta í ítölsku úrvalsdeildinni um helgina.
„Fyrir mér er hann besti miðvörður heims. Þegar hann byrjar að hlaupa getur hann komist inn í vítateig andstæðinganna á fimm sekúndum.“
Kim verður væntanlega í eldlínunni þegar Napoli mætir Frankfurt í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld. Napoli vann fyrri leikinn með tveimur mörkum gegn engu.