Kristianstad vann öruggan 4-0 sigur á Djurgården og setti þar með mikla pressu á topplið Rosengård. Amanda Andradóttir spilaði allan leikinn í liði Kristianstad og nældi sér í gult spjald í fyrri hálfleik. Emelía Óskarsdóttir spilaði svo síðasta stundarfjórðunginn .
Guðrún var á sínum stað í miðverðinum þegar Rosengård fékk Vittsjö í heimsókn. Eftir að komast 1-0 yfir þá lenti toppliðið 2-1 undir áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks. Staðan var áfram 2-1 gestunum í vil allt þangað til á 81. mínútu þegar jöfnunarmarkið kom loks.
Það var svo þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma sem Rosengård kom knettinum í netið og tryggði sér dramatískan 3-2 sigur. Guðrún og félagar eru því með 51 stig á meðan lið Elísabetar Gunnarsdóttur er í öðru sæti með 48 stig.
Liðin mætast á heimavelli Kristianstad þann 23. október í leik sem gæti skipt sköpum í titilbaráttunni.