Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari, sem jafnframt er sviðsstjóri knattspyrnusviðs hjá KSÍ, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið og segir ástæðuna vera fjárhagslega endurskipulagningu. Hann hafi verið tilneyddur til að skera niður.
„Þess vegna þurfti ég að taka þá ákvörðun, hvernig ég vildi skipuleggja teymið. Þá tók ég þá ákvörðun að hringja í Togga [Þorgrím] og útskýra fyrir honum hvernig staðan er.
Eins frábær og Toggi er, þá tók hann þessu eins og mesta eðalmenni. Hann er búinn að vera geggjaður í öllum þeim hlutverkum sem hann hefur verið í,“ segir Arnar við Fréttablaðið.
Þorgrímur hefur eins og fyrr segir starfað fyrir landsliðið um árabil og fór meðal annars með liðinu á EM í Frakklandi 2016 sem og HM í Rússlandi 2018.
Hann gekk í ýmis störf, allt frá því að innrita liðið og undirbúa komu þess á hótel í keppnisferðalögum í að halda uppi góðum liðsanda.
Þorgrímur, sem er þjóðþekktur rithöfundur, skrifaði bókina Íslenska kraftaverkið: á bak við tjöldin, þar sem hann fjallaði um lífið á bak við tjöldin í landsliðsferðum íslenska landsliðsins. Bókin, sem hann gaf út með leyfi þjálfara og leikmanna, kom út í aðdraganda HM í Rússlandi.